Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 653. máls.

Þskj. 972  —  653. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um lögmenn, nr. 77/1998,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Orðin „enda njóti hann í þinghöldum aðstoðar lögmanns sem starfar hér á landi“ í 3. mgr. 2. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpi þessu eru til komnar vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA við að tvær tilskipanir Evrópusambandsins er varða þjónustu evrópskra lögmanna hér á landi séu ekki réttilega innleiddar í íslenskan rétt. Er þar um að ræða tilskipun 77/249/EBE frá 22. mars 1977 um heimild evrópskra lögmanna til að veita tímabundna þjónustu hér á landi og tilskipun 98/5/EB frá 16. febrúar 1998 um heimild evrópskra lögmanna til að staðfesta sig hér á landi og veita hér þjónustu. Í áliti Eftirlitsstofnunarinnar til íslenskra stjórnvalda kemur fram að samkvæmt íslenskum lögum sé aðila heimilt að flytja mál sitt sjálfur. Því sé óheimilt að binda heimild lögmanna á Evrópska efnahagssvæðinu til að fara með mál fyrir dómstólum ávallt við að þurfa í þinghöldum að starfa með hérlendum lögmanni. Bendir stofnunin í því sambandi á dóm Evrópudómstólsins frá 25. febrúar 1988. Í því máli var um að ræða sams konar ákvæði í þýskum lögum og þeim íslensku. Niðurstaða dómsins var sú að ef lög gera ekki kröfu til að lögmaður mæti fyrir aðila í dómsmáli og heimila t.d. aðila að flytja mál sitt sjálfur þá sé óheimilt að takmarka heimild lögmanns á Evrópska efnahagssvæðinu við að hann starfi með innlendum lögmanni.
    Ráðuneytið leitaði eftir sjónarmiðum Lögmannafélags Íslands á áliti Eftirlitsstofnunarinnar. Hafði félagið ekki athugasemdir við það sem þar kom fram. Er því lagt til að orðin „enda njóti hann í þinghöldum aðstoðar lögmanns sem starfar hér á landi“ verði felld út í 3. mgr. 2. gr. laganna.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 77/1998,
um lögmenn, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að fallið verði frá þeirri skipan að binda heimild lögmanna á Evrópska efnahagssvæðinu til að fara með mál fyrir dómstólum hér á landi við aðstoð lögmanns sem starfar hér á landi þar sem það þykir ekki samrýmast skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ekki er ástæða til að ætla að útgjöld ríkissjóðs aukist verði frumvarpið að lögum.